Bændur hafa ekki verið þekktir fyrir að láta fólk blása í blöðru

Þessari blessuðu stúlku hefði verið nær að hringja í mig þar sem ég bý á Miðhúsum og fá "drátt". Stórefast um að ég hefði látið hana blása í blöðru nema kannski ef hún væri alveg lárétt af drykkju.

 Bændur hafa í gegnum tíðina verið óþreytandi í því að draga fólk upp úr hinum ýmsu vandræðum með bros á vör og þakklæti að launum. Ég er þar engin undantekning


mbl.is Ölvaður ökumaður bað um aðstoð lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaus vinna

Nú er orðið allt of langt síðan ég setti eitthvað hér inn. Satt að segja hef ég hreinlega ekki haft lausa stund sem heitið getur síðustu 2 mánuði. Kláraði fyrsta slátt í júní og seinni slátt seinnipartinn í júlí. Það var einhver smávægilegur 3. sláttur, en þó mun minna en ég átti von á fyrr í sumar. ýmislegt hefur gengið á í sumar, enda ekki hægt annað fyrst ég gaf mér ekki einu sinni tíma í að skrifa neitt. Það sem stendur uppúr hvað sumrið varðar hjá mér er fyrst og fremst það hvað heyskapur gekk vel og lítið var um bilanir. Síðan er það náttúrulega kornskurðurinn. Ég átti von á að fá þreskivélina til mín í gær en eitthvað klikkaði í skipulaginu og var hún send annað þannig að ég þarf að bíða eftir næsta þurrki. Hveitið lítur vel út og þrælstendur þrátt fyrir miklar rigningar og rok. Sömuleiðis kemur það mér á óvar hvað byggið stendur vel og tel ég að þar megi þakka kynbótastarfi undanfarinna ára. Gæsin er örlítið farin að láta sjá sig á nýræktunum, en samt ekki í því magni sem ég hafði vonast eftir. Ég nenni hreinlega ekki að liggja fyrir einhverjum 10 fuglum, bíð frekar betri tíma. Það er alltaf möguleiki á að það fjölgi þegar eftir að kornið hefur verið skorið.

Ég er kominn með nýjan hund (labrador) sem heitir Tinni og er alveg ofboðslega skemmtilegur og þægilegur. Það rætist vonandi betur úr honum en hinum greyjunum sem ég þurfti að lóga í sumar eftir að þau gerðu sér lítið fyrir og drápu 4 kindur á 1 degi. Veit hreinlega ekki hvað kom yfir þau þar sem þau voru alvön því að umgangast fé. 

Á döfinni er að fara í Rauðaskóg og útbúa aðstöðu fyrir geldneyti þar sem fjósið verður fullnýtt í vetur undir kýr. Ég keypti 35.000 ltr af kvóta í sumar og þarf því á hverjum fermetra að halda ef ég á að ná að mjólka upp í þetta allt saman. Það kom til mín ráðunautur frá BÍ um daginn og tók út fjósið með tilliti til breytinga og stækkunar. Niðurstaðan kom mér ekkert sérstaklega á óvar en þar er alveg að ljóst að það borgar sig ekki að halda í gamla fjósið og það eina sem kemur til greina ef við ætlum að vera í þessu til frambúðar er að byggja nýtt fjós.

Annars fer nú vonandi að róast hjá mér á næstunni. 

 

 


Vinnutörn

Jæja, þá er maður kominn úr fríi (fyrir 2 vikum). Rhodos var alveg frábær og sennilega með betri stöðum sem ég man eftir til að vera með börn. Grikkir setja börn í algjöran forgang, gamlar farlama konur standa upp í strætó fyrir fullfrískum 6 og 7 ára börnum. Kaupmenn moka sleikjó í alla krakka sem koma inn í verslanir þeirra og ef barn sést grátam, þá flykkist fólk að til að reyna að leysa málið með foreldrunum. Hreinlega æðislegt að vera með börnin á svona stað. Þar fyrir utan má síðan finna margt gott og slæmt um Grikkina. Nokkur góð atriði: vingjarnlegir, barngóðir, mikil þjónustulund, tala flestir ensku, heiðarlegir. Nokkur slæm atriði: Sóðar, full rólegir í tíðinni, man hreinlega ekki eftir flleiri slæmum punktum. Eyjan Rhodos er gríðarlega falleg ef frá er talinn sóðaskapurinn og alveg þess virði að skoða rækilega ef fólk fer í frí þangað.

Eftir þetta vel heppnaða frí var farið beint í sáningu á grasi þar sem ekki hafði náðst að klára það áður en ég fór út. Síðan byrjaði heyskapur á fullu 18. júní og stendur sem hæst núna. Ég stefni að því að klára 1. slátt í dag og byrja að undirbúa 2. slátt í vikunni með skíta og áburðargjöf. Þetta er alveg með fyrsta móti, og leyfi ég mér að fullyrða það að 1. sláttur hefur aldrei verið kláraður fyrir júlí hér á Miðhúsum áður. Við erum alveg 2 vikum fyrr á ferðinni núna miðað við síðustu 2 ár. Stærsti munurinn er líka sá að nú eru alvöru vélar á bænum og hægt að leggja mikið undir í einu. Þetta er mikill munur frá því sem áður var þegar ekki var þorandi að slá meira en 3-4 ha í einu þar sem vélarnar voru svo litlar og afköstin eftir því. Núna slær maður bara það sem er tilbúið óháð magni og fær fyrir vikið mun betra fóður inn á miklu styttri tíma en áður fyrr. Í ár stefnir í að ca. 20 ha verði slegnir 3. slætti, en það hefur aldrei gerst hér áður. Maður áttar sig varla á því sjálfur hversu miklar breytingar hafa orðið á búsháttum hér frá því að við tókum við. Vonandi halda breytinga í jákvæða átt áfram á næstu misserum.


Langþráð frí!!!!

Nú er loksins komið að því! Á morgun fer ég til Rhodos í frí í 1 viku. Fjólskyldan er búin að spóka sig þar í viku og leyfir mér að taka þátt í seinni hálfleik með sér. Síðustu dagar eru búnir að vera hreint ótrúlegir, brjáluð vinna, bilanir ofl til að hafa stressið á sínum stað. En nú er allt það helsta frá nema þá gras og rýgresissáningin, en ég fæ einhvern í það á meðan ég er úti. Nú ætla ég bara að spóka mig í sólinni , gera eitthvað skemmtilegt með börnunum og drekka kokteila og borða góðan mat á kvöldin. Bless í bili.


Fóðrun er lykilatriði!

Kannski er eitthvað við þetta sem ekki kemur fram, en í dag rækta flestir framleiðendur (Á Íslandi allavega) kýr með prótein í huga þegar kemur að afurðum. Til þess að ná háu póteinmagni og einnig fitumagni þá væntanlega líka er að miða fóðrun kúa við það. Síðan er horft á þennan þátt í nautavali.

Ég sé ekki alveg af hverju ætti að far út í einhverja genaræktun þegar hægt væri að gera þetta á "náttúrulegann" hátt á kannski ögn lengri tíma


mbl.is Léttmjólk úr spenanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skvett úr klaufunum

Jæja, loksins hafði ég það af að hleypa kúnum út í fyrsta skipti í sumar. Ég var 3 dögum fyrr en á síðasta ári þrátt fyrir að spretta væri með minna móti og því ekkert sérstök beit í boði. Þetta var samt nauðsynlegt þar sem heilsufari gripanna hafði hrakað mikið síðustu vikur og kenni ég langri innistöðunni um það. Þetta er alltaf jafn skemmtileg sjón að sjá, 4-500kg gripir á hlaupum og hoppandi eins og smákálfar. Allra lifðu þær þetta af en það hefur einu sinni komið fyrir hérna að kýr hafi drepist í látunum sem þessu fylgir.

Ég fæ alltaf sumarfílingin í mig þegar hleypt er út og þá fyrst byrjar spenningurinn hjá mér varðandi sumarverkin.

Ég er nú samt ekki alveg búin með alla jarðvinnslu ennþá, á eftir að herfa 4 ha, sá í 9 ha og bera á og valta 13 ha. Þessi seinagangur kom mér svosem ekkert á óvart þar sem ég er að taka upp yfir 20 ha, en það er 1/3 af heildar ræktarlandi. Vissulega er ég að taka smá séns þar en ef vel til tekst á ég mikið af góðum nýræktum fyrir vikið.

Kornið og hveitið er aðeins byrjað að gægjast í gegnum moldina. Ég hef ekkert sérstaklega miklar áhyggjur af korninu en hveitið er ný tilraun hjá mér sem spennandi verður að fylgjasgt með í sumar og haust.

Nóg í bili, er farinn að tæta.


Feminískar beljur..........

Ég á góðan kunningja sem heldur mikið upp á lagið með Baggalúti og spilar það oft og mikið þó svo að það hafi komið út fyrir u.þ.b. ári síðan. Hann er sjálfur þessi týpa sem lýst er í laginu og ég hef oft velt því fyrir mér hvort lagið hafi bara hreinlega ekki verið samið um hann. Það sem mér finnst vera grátbroslegt við þetta er það að strákgreyið skynjar hreinlega ekki háðið sem textinn ber með sér gegn þessari ríkjandi karlrembu. Samt er lagið spilað í tíma og ótíma, sungið hátt með og lagt áherslu á orðin "feminískar beljur súpa sjálfsagt hveljur...." Sjálfur mundi hann sjálfsagt verslast upp og deyja innan viku ef konan færi frá honum. Fyrir honum er "þvottavél" orð sem hann getur ekki borið fram, hvað þá skrifað það. Sama gildir um orð eins og "eldavél", "uppvask", "uppeldi", "ryksuga" og fleiri orð sem lýsa einhverju sem eingöngu húsmæður gerðu fyrir 50 árum eða svo. Ef eitthvað af þessum tækjum biluðu, þá væri hann sjálfsagt ekki nema 20 mínútur að rífa í sundur, laga og setja saman.  Sjálfur er ég langt frá því að vera fullkominn þegar kemur að verkaskiptingu á mínu heimili en við reynum samt að hafa þann háttinn á að við séum bæði sátt. Ég reyni smátt og smátt að ýta Elísabetu meira í vélavinnu tengda búskapnum, og stefni á móti að því að vera virkari í heimilisstörfum. Allt tekur þetta tíma en ég sé það samt eftir að hafa verið einn í koti í 2 sólarhringa að það að reka heimili er mesta puð (samt er ég barnlaus) og sjálfsagt eitt vanmetnasta starf sem til er. Ég er alveg á því að karlmenn þurfi í auknum mæli að viðurkenna það að þetta er VINNA, og taka þátt í henni, en ekki eithvert dútl sem afgreitt er með annari á milli Guiding light þátta. 

Allavega hef ég alveg nýja sýn á þetta allt saman, þó svo að þetta sé alls ekki í fyrsta skipti sem ég er einn heima í nokkra daga.


Loksins!!

Það hlaut að koma að því. Þetta er bráðnauðsynlegt að hafa strandsiglingar. Vegunum verður að hlífa. Ég sigldi sjálfur á ströndinni í "den" og skildi aldrei af hverju þetta var lagt af. Skipin voru yfirleitt fullestuð til og frá RVÍK. En gott mál og vonandi fylgja stóru báknin með
mbl.is Strandsiglingar hefjast aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grasekkill

Jæja......Þá er ég orðinn grasekkill, allavega næstu vikuna. Í morgun fór hele familien til Rhodos án mín þ.m.t. Ma & Pa, Helga, Kjartan og strákarnir hennar Helgu. Meira að segja Konný fór með þeim þannig að ég sit hér einn heima, sötra skyr.is drykk (sem er æði enda unnin úr mjólk) og horfi á allt ruslið sem hefur komið í kringum mig á 12 tímum. Þetta er þó ekki eins slæmt og halda mætti, þar sem ég fer út til þeirra eftir viku og verð með þeim í viku í sólinni. Það eru hins vegar margir kostir við að vera einn heima í svona langan tíma:

1. Ég vakna alltaf á undan klukkunni (Þegar það er enginn við hliðina á mér er tilgangslaust að     liggja of lengi)

2. Ég kem miklu meiru í verk þar sem ég hef engan til að tala við og þarf því ekki að slæpast.

3. Ég get borðað hvað og hvenær sem ég vill.

4. Bjórinn getur verið á lofti allan daginn, ég þarf ekkert að keyra neitt.

Þetta eru helstu kostirnir, en þó tel ég að ókostirnir séu fleiri, en það er ágætt að vera einn í stuttan tíma í einu.

 Ég ætlaði að setja kýrnar út í gær en vindurinn var of mikill, reyni sennilega á morgun ef veður er skapleg. Þeir sem vilja verða vitni að þessu húllumhæji er bent á að mæta í hádeginu

Sæl að sinni

 

 


Nýr landbúnaður eða jafnvel enginn???

Nú er það öllum sem vilja sjá ljóst að ný stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er að myndast. Persónulega tel ég fátt jákvætt við það nema þá helst að hlutur kvenna í ráðherrastólum hlýtur að aukast eitthvað. Ég er ákaflega hræddur um að staða bænda verði erfið ef stefna beggja flokka í þeim málum nær fram að ganga. Ég er hræddastur við það að gerðar verði róttækar breytingar á styrkjakerfinu á skömmum tíma án þess að finna út aðrar leiðir eða auka umsvif á "grænum greiðslum". Þetta getur komið sér mjög illa fyrir stóran hóp bænda sem hafa verið að auka umsvifin verulega á seinustu árum með tilheyrandi kostnaði og skuldsetningu. Allar snöggar breytingar koma illa við þessa aðila og líklegt að bændum muni þá fækka mun hraðar en verið hefur.

Ég er þeirrar skoðunar að öflugur landbúnaður þar sem stór og lítil bú geta notið sín sé grundvöllur fyrir blómlegri búsetu í hinum dreifðu byggðum landsins. Aðeins þá geta aðrar greinar sem byggja afkomu sína á vinnslu landbúnaðarafurða blómstrað og starfað í góðri sátt við bændur og neytendur. Nauðsynlegt er að setja hömlur á hversu mikið af heildargreiðslumarki hver aðili megi eiga til svo hægt sé að tryggja áframhaldandi fjölbreytni á búum landsins. Einnig þarf að sporna við þeirri afleitu þróun að auðmenn geti keypt jarðir að vild og komið þar af leiðandi í veg fyrir nýliðun í greininni vegna hækkandi jarðarverðs.

Mikið hefur verið talað um þá styrki sem bændur njóta sem eitthvert krabbamein á fjárlögum. Þessi málflutningu nokkura aðila er alveg út í hött þar sem neytendur njóta í staðinn lægra verðs á landbúnaðarafurðum. Í nokkrum tilvikum hafa ákveðnar afurðir s.s. lamba og nautakjöt verið dýrt í búðum, en þar tel ég að sökin sé hjá milliliðum og verslanakeðjunum en alls ekki hjá bændunum sjálfum.

PÚFF!!! Þá er þetta komið úr kerfinu hjá mér Shocking 

 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Jón Hafsteinn Ragnarsson

Höfundur

Jón Hafsteinn Ragnarsson
Jón Hafsteinn Ragnarsson
Ég heiti Jón H Ragnarsson (Nonni) og bý á Miðhúsum í Biskupstungum. Þar rek ég kúabú ásamt konu minni Elísabetu og 3 börnum
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband